Lykilfólk ráðstefn­unnar

Bergur Ebbi Benediktsson
ráðstefnustjóri
Bergur Ebbi er lögfræðingur og framtíðarfræðingur. Hann starfar sem uppistandari, leikari, fyrirlesari og rithöfundur, ásamt því að vera hluti af teyminu á bak við sprotafyrirtækið Spesíu.

Daði Már Kristófersson
fjármála- og efnahagsráðherra
Daði Már var prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands áður en hann tók við embætti. Daði var sérfræðingur á Hagfræðistofnun Háskóla Íslands frá 2007 og lektor og síðar dósent við hagfræðideild Háskóla Íslands frá 2009. Daði er með doktorspróf í hagfræði frá Norwegian University of Life Sciences og meistaragráðu í umhverfis- og auðlindahagfræði frá sama háskóla.


Kalev Pihl
framkvæmdastjóri SK ID Solutions í Eistlandi
Kalev lauk MSc-prófi í stærðfræði og hefur kennaramenntun í stærðfræði og tölvunarfræði frá Háskólanum í Tallinn í Eistlandi. Hann hefur starfað í 20 ár við upplýsingatæknitengd störf í opinbera geiranum, bankageiranum og upplýsingatæknigeiranum. Kalev er sérfræðingur í rafrænum auðkennum og persónuvernd. Síðastliðin níu ár hefur hann verið forstjóri SK ID Solutions. Auk daglegra starfa sinna hefur Kalev kennt á háskólastigi og tekið virkan þátt í að stuðla að öruggara nethegðun meðal barna og ungmenna með fræðslu til foreldra, kennara og ungmenna um allt Eistland.


Sigríður Sveinsdóttir
vöru- og verkefnastjóri Auðkennis
Sigríður hefur verið hjá Auðkenni síðan 2023. Hún starfaði áður við verkefnastjórnun, þjónustu og endurkröfur hjá SaltPay. Þar áður vann hún hjá Borgun og Landsbanka. Sigríður er viðskiptafræðingur að mennt frá Háskólanum í Reykjavík.


Sverrir Bergþór Sverrisson
tæknistjóri Auðkennis
Sverrir er útskrifaður tölvunarfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og hefur um langt árabil unnið að verkefnum sem tengjast rafrænum auðkennum, skilríkjum og grunnviðum þeirra. Hann hefur starfað hjá Auðkenni í 20 ár, en vann áður sem kerfisstjóri hjá Greiðsluveitunni, Fjölgreiðslumiðlun og N1.


Haraldur Agnar Bjarnason
framkvæmdastjóri Auðkennis
Haraldur Agnar er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Hann starfaði eftir útskrift í Kísildalnum vestan hafs við framleiðslu tölvuleikja kringum aldamótin. Hann varð síðan starfsmaður fjármálaráðuneytisins upp úr 2000 og hóf fljótlega að sinna málefnum Auðkennis sem fulltrúi ráðuneytisins. Hann var fyrst stjórnarmaður í Auðkenni fyrir hönd ráðuneytsins á árunum 2005-2011, en hefur frá árinu 2011 verið framkvæmdastjóri fyrirtækisins.


Tor Alvik
fagstjóri hjá Stafrænum Noregi (Digdir)
Tor Alvik er fagstjóri hjá Stafrænum Noregi eða Digitaliserings Direktoratet eða bara Digdir. Hann hefur verið leiðandi í þróun og innleiðingu stafrænnar auðkenningartækni hjá hinu opinbera um 20 ára skeið. Hann stýrir stefnumótun og samhæfingu stafrænnar auðkenningar hjá Digdir og er verkefnisstjóri NOBID (Nordic-Baltic eID Project), sem tengir saman stafrænar auðkenningarlausnir átta landa, Norðurlanda og Eystrasalts. Alvik hefur einnig tekið þátt í alþjóðlegum samstarfsverkefnum, þar á meðal sem leiðtogi í NOBID samstarfinu, sem hefur þróað og prófað greiðslulausnir í tengslum við nýtt evrópskt og stafrænt auðkenningarveski eða EU Digital Identity Wallet.


Birna Íris Jónsdóttir
framkvæmdastjóri Stafræns Íslands
Birna Íris hefur áralanga reynslu sem leiðtogi upplýsingatækni og hefur meðal annars starfað hjá Landsbankanum, Sjóvá, Högum og Össur sem slíkur. Birna hefur einnig starfað sem ráðgjafi hjá eigin fyrirtæki, Fractal ráðgjöf. Hún hefur BSc-gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands, MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og diplómagráðu í jákvæðri sálfræði frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Sem leiðtogi leggur Birna áherslu á skýra framtíðarsýn, hagkvæmni og mannlega þáttinn.


Heiðrún Jónsdóttir
framkvæmdastjóri SFF
Heiðrún hefur unnið sem lögmaður í áraraðir og hefur víðtæka stjórnunarreynslu úr íslensku atvinnulífi. Hún hefur meðal annars setið í stjórnum Íslandsbanka, Íslenskra verðbréfa, Gildi lífeyrissjóðs, Regins, Icelandair, Símans, Olís, Norðlenska, Reiknistofu bankanna, Ístaks, Arion verðbréfavörslu og Royal Arctic Line á Grænlandi. Áður en Heiðrún kom til SFF starfaði hún hjá Eimskip, lögmannastofunni Lex, Símanum og KEA.


Magni R. Sigurðsson
settur forstöðumaður CERT-IS
Magni var áður fagstjóri atvikameðhöndlunar hjá netöryggissveitinni CERT-IS, sem heyrir undir utanríkisráðuneytið. Hann hefur áratuga reynslu af netöryggismálum og starfað áður hjá fyrirtækjum á borð við Cyren og FRISK Software, þar sem hann sinnti greiningu og viðbrögðum við netógnum. Magni hefur fjallað ítarlega á opinberum vettvangi um þróun netsvika, gervigreind í netöryggi og stafræna vernd og hefur yfirgripsmikla þekkingu á sínu sviði. Magni hefur BSc-gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.


Rósa María Hjörvar
stafrænn verkefnastjóri hjá ÖBÍ réttindasamtökum
Rósa María Hjörvar er stafrænn verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtaka og er sérfræðingur í stafrænni þróun og fötlun. Hún er sjálf lögblind og hefur unnið með aðgengismál í áratugi. Hún er menntaður bókmenntafræðingur með MA próf frá Kaupmannarhafnarháskóla og kennir bókmenntir við Háskóla Íslands, Rósa María leggur áherslu á gagnrýna hugsun í nýsköpun, en hún er líka óhrædd við að taka mið af sinni reynslu og upplifun sem fötluð kona í stafrænum heimi.

Fannstu ekki það sem þú varst að leita að?

Við erum alltaf tilbúin að aðstoða. Sláðu á þráðinn eða sendu okkur línu og við bregðumst við um hæl.

KT. 521000-2790 — VSK nr. 69345